top of page

Að taka tillit til mófugla á varptíma

Updated: May 21

Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi


Fjölbreytni lífsins á jörðinni er stórkostleg. Hún stendur undir lífi okkar og yndi og flæðir um heiminn sem orka og næringarefni í hnattrænum og staðbundnum hringrásum. Að vernda umhverfið og samræma nýtingu þess og vernd, er og verður viðvarandi áskorun (1,2). Íslensk náttúra er heillandi og einstök í fábreytni sinni en eins og títt er um úthafseyjar eru hér fáar tegundir en oft mjög stórir stofnar lífvera. Að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni af því tagi sem birtist í stórum stofnum, þegar ásókn í búsvæði þeirra eykst, er einstakt viðfangsefni.


Fuglafána Íslands er um margt óvenjuleg. Vegna hnattstöðu, jarðfræði, landnotkunar og fleiri þátta eru hér hlutfallslega margar tegundir fugla sem verpa á jörðu niðri. Þeir algengustu þessara fugla eru í daglegu tali nefndir mófuglar og eru einkum vaðfuglar en einnig nokkrir spörfuglar og rjúpa. Þessir fuglar verpa á flestum gerðum af skóglausu, grónu landi svo sem mólendi, graslendi og votlendi og sumar tegundir ná jafnvel háum þéttleika á hálfgrónum svæðum (3,4). Margir þessara stofna eru enn mjög stórir. Langflestir verpa þeir á láglendi en áætlað hefur verið að um 80-90% vaðfuglanna verpi á láglendi undir 300 m y.s (5). Fleiri fugla mætti nefna sem eru enn algengir varpfuglar á opnu landi á láglendi svo sem kjóa og grágæs (6,7). Flestir verpa þessir landfuglar utan verndarsvæða og eru því í beinni skotlínu nær allra framkvæmda sem fara fram á láglendi.


Allir íslenskir fuglar eru friðaðir samkvæmt lögum en hægt er að aflétta friðun af nokkrum tegundum vegna nýtingar eða tjóns (nr. 64/1994). Friðunin nær líka til hreiðra fugla og unga. Það er því óheimilt að raska friðhelgi fuglavarps jafnvel þó heimilt sé að leggja búsvæði þeirra undir framkvæmdir. Þetta krefst þess af framkvæmdaaðilum að þeir grandi búsvæðum friðaðra fugla utan varptíma. Slíkt búsvæðatap getur þó augljóslega gengið gegn meginmarkmiðum laga í mörgum tilfellum. Þar má nefna ákvæði eins og að „vernda skuli] til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru“, að „tegundirnar nái að viðhalda sér í lífvænlegum stofnum til lengri tíma á náttúrulegum búsvæðum sínum“ (nr. 60/2013)  og „að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna“ (nr. 64/1994). Lög, reglugerðir og skipulag sveitarfélaga virðast vanburða til að ná þessum markmiðum. En eftir stendur að óumdeilt er að fuglarnir sjálfir, egg þeirra og ungar eru friðhelg. 


En hvaða ráð má gefa þeim sem hyggja á framkvæmdir á búsvæðum mófugla? Til að hlífa hreiðrum og ungum er best að forðast að fara í framkvæmdir þegar fuglar eru í varpi eða finna hreiður og unga svo að hægt sé að hlífa þeim við afföllum og þjáningu (lög nr. 64/1994 og 55/2013). Síðustu tvo áratugi hafa þúsundir mófuglahreiðra verið vöktuð við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi sem hluti af víðtækari rannsóknum á stofnvistfræði mófugla (8). Einnig hefur verið fylgst með ungum algengra tegunda með merkingum og rafeindatækjum. Það er því komin góð mynd af því hvenær varptíminn er og hvernig gengur að staðsetja hreiður og unga. Varptímann má sjá á mynd 2. Fyrstu fuglar hefja varp um miðjan apríl í góðum árum og þeir síðustu eru að verpa í byrjun júlí. Álega hjá flestum þessum tegundum tekur um 20-28 daga. Þá tekur við ungaskeið sem varir um mánuð þar til ungar verða fleygir. Á þessu má sjá að varptími algengra mófugla varir frá því um miðjan apríl þar til um miðjan ágúst. Mest er af hreiðrum og ungum á ferli í maí og júní en einnig er heilmikið fjör í júlí (mynd 2).



Mynd 1. Lóuungar í hreiðri. Mynd: Aldís Erna Pálsdóttir.
Mynd 1. Lóuungar í hreiðri. Mynd: Aldís Erna Pálsdóttir.


Fuglar hafa ýmsar leiðir til að fela hreiður sín og unga. Leiðir sem hafa mótast af náttúrulegu vali um milljónir ár í þróunarkapphlaupi við afræningja. Sumir fela hreiðrin vel og sitja mjög fast, svo sem stelkur og jaðrakan. Aðrir treysta á felubúning eggja og gott útsýni og læðast af hreiðri, jafnvel á nokkur hundruð metra færi, ef þeir verða varir við ógn. Í þessum flokki eru t.d. heiðlóa og spói. Þá er ýmislegt fleira í atferli fuglanna sem gerir hreiðraleit erfiða en tegundirnar vara t.d. hver aðra við óboðnum gestum. Að finna hreiður er sérhæfð vinna. Hún byggir á reynslu, þekkingu á lífsháttum tegundanna en fyrst og fremst á mikilli vinnu. Að finna eitt hrossagaukshreiður í góðum búsvæðum tekur t.d. 8 km göngu að jafnaði (9). Með því að bera saman varpþéttleika fugla í talningum og fjölda hreiðra sem finnast með verulegu leitarátaki á einstökum svæðum má fá hugmynd um hversu hátt hlutfall hreiðra finnst. Þetta hlutfall er mjög misjafnt eftir tegundum. Nær öll líkleg tjaldahreiður finnast til dæmis en í besta falli um þriðjungur af hreiðrum jaðrakans og heiðlóu. Og þetta er staðan þegar sérhæft fólk ver stórum hluta sumarsins á einstökum svæðum (10). Enn erfiðara er að finna unga flestra mófugla heldur en hreiður en þeir eru í góðum felubúningi, tvístrast fljótt er þeir heyra viðvörunarköll foreldra og stinga sér oft á kaf í gróður. Afar langsótt er að finnist nema brot af ungum á einstökum svæðum nema með sérhæfðum rannsóknum (11).


Samandregið þá er afar ólíklegt að framkvæmdaaðilar geti fundið nema brot af hreiðrum og ungum mófugla á varptíma nema með umfangsmiklum rannsóknum. Undantekningar gætu verið í sumum búsvæðum, t.d. á ógrónu eða lítt grónu landi svo sem á söndum eða í vegöxlum. Eina raunhæfa leiðin til að uppfylla lagalegar skyldur á þessu sviði virðist því að stunda framkvæmdir utan varptíma sem varir eins og áður segir frá miðjum apríl fram í miðjan ágúst. Til að vernda stofna til frambúðar er svo einnig nauðsynlegt að varðveita búsvæði þeirra.  



Mynd 2. Varptími átta tegunda algengra mófugla. Á myndinni má sjá þrjár tíðnidreifingar. Sú fyrsta (bleik) sýnir hvenær varp hófst á fundnum hreiðrum (n = 6741 mófuglahreiður). Seinni dreifingarnar sýna dagsetningar klaks fyrir reiknaðan fjölda hreiðra sem egg klekjast úr (græn) og reiknaðar dagsetningar þegar ungar verða fleygir (fjólublá). Út frá birtum rannsóknum má áætla úr hversu mörgum hreiðrum ungar klekjast og hversu hátt hlutfall unga verða fleygir. Fyrstu eggjum er orpið rétt fyrir miðjan apríl og í síðustu hreiður er orpið í byrjun júlí. Ungar fara að klekjast um miðjan maí og þeir síðustu í byrjun ágúst. Fyrstu ungar verða fleygir um miðjan júní en þeir síðustu um miðjan ágúst. Láréttar línur efst á mynd sýna heildarlengd hreiðurskeiðs og ungaskeiðs, þ.e. þess tíma sem hreiður eru virk eða ungar eru á ferli.
Mynd 2. Varptími átta tegunda algengra mófugla. Á myndinni má sjá þrjár tíðnidreifingar. Sú fyrsta (bleik) sýnir hvenær varp hófst á fundnum hreiðrum (n = 6741 mófuglahreiður). Seinni dreifingarnar sýna dagsetningar klaks fyrir reiknaðan fjölda hreiðra sem egg klekjast úr (græn) og reiknaðar dagsetningar þegar ungar verða fleygir (fjólublá). Út frá birtum rannsóknum má áætla úr hversu mörgum hreiðrum ungar klekjast og hversu hátt hlutfall unga verða fleygir. Fyrstu eggjum er orpið rétt fyrir miðjan apríl og í síðustu hreiður er orpið í byrjun júlí. Ungar fara að klekjast um miðjan maí og þeir síðustu í byrjun ágúst. Fyrstu ungar verða fleygir um miðjan júní en þeir síðustu um miðjan ágúst. Láréttar línur efst á mynd sýna heildarlengd hreiðurskeiðs og ungaskeiðs, þ.e. þess tíma sem hreiður eru virk eða ungar eru á ferli.

Heimildir

 

  1. Ripple, W. J. et al. 2017. World scientists’ warning to humanity: a second notice. BioScience 67:1026-1028.


  2. Dasgupta, P. & Levin 2023. Economic factors underlying biodiversity loss.  Phil. Trans. Roy. Soc. 378: 20220197.


  3. Borgný Katrínardottir, Alves, J. A., Hrefna Sigurjónsdóttir, Páll Hersteinsson & Tómas Grétar Gunnarsson 2015. The Effects of Habitat Type and Volcanic Eruptions on the Breeding Demography of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus. Plos One 10, doi:10.1371/journal.pone.0131395 .


  4. Lilja Jóhannesdottir, Ólafur Arnalds, Sigmundur Helgi Brink, S. & Tómas Grétar Gunnarsson 2014. Identifying important bird habitats in a sub-arctic area undergoing rapid land-use change. Bird Study 61:544-552.


  5. Tómas Grétar Gunnarsson 2020. Búsvæði og vernd íslenskra vaðfugla. Náttúrufræðingurinn 90: 145-162.


  6. Tómas Grétar Gunnarsson, Gill, J.A., Appleton, G.F., Hersir Gíslason, Arnþór Garðarsson, Watkinson, A. & Sutherland, W.J. 2026. Large-scale habitat associations of birds in lowland Iceland: Implications for conservation. Biological Conservation 128:265-275.


  7. Tómas Grétar Gunnarsson, Appleton, G. F., Arnþór Garðarson, Hersir Gíslason & Gill, J. A. 2008. Búsvæðaval og stofnvernd grágæsa á láglendi. Bliki 29:11-18.


  8. Laidlaw, R.A., Tómas Grétar Gunnarsson, Méndez, V., Carneiro, C., Böðvar Þórisson, Wentworth, A., Gill, J.A., Alves, J.A. 2020. Vegetation structure influences predation rates of early nests in subarctic breeding waders. Ibis 162: 1225-1236.


  9. Wentworth, A. 2015. Effect of different habitats on common snipe (Gallinago gallinago) breeding abundance and nest survival in lowland Iceland, MSc ritgerð, Nottingham Trent University, Nottingham.


  10. Verhoeven, M.V., Loonstra, A.H.J., McBride, A.D., Macias, P., Kaspersma, W., Hooijmeijer, Jos C. E. W., Velde,E.v.D., Christiaan, B., Senner, N.R., & Piersma, T., 2020. Geolocators lead to better measures of timing and renesting in black‐tailed godwits and reveal the bias of traditional observational methods. Journal of Avian Biology 51.


  11. Jarrett, D., Lehikoinen, A. & Willis, S. G. J. I. 2024. Monitoring wader breeding productivity.  Ibis 166: 780-800.

 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagt inn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prenta meira og dreifa víðar

bottom of page