top of page

Er sælla að gefa en að þiggja?

Updated: Feb 6

Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, félagsfræðingur, skrifar


VARÚÐ Hér birtast vangaveltur um hluti, gjafir, skautun og forréttindi. Velmegun, vandamál alþjóðavæðingar og

persónulega leti.


Hver einasti hlutur heimilisins er verðmætur, en því miður þekkjum við flest að hlutunum getur fjölgað ískyggilega hratt og þá eiga verðmætin til að vera orðin of mikil. Sérstaklega þegar börn bætast á heimilið. Þá

er eins og griðarstaðurinn sem heimilið á að vera, verði einhverskonar stoppistöð fyrir allt sem öllum í kringum

mann finnst að börnunum vanti.


Hvað á svo að gera við verðmætin þegar þau falla úr notkun? Ég fæ samviskubit við tilhugsunina um að losa

mig við allt þetta dót, því ég er engan vegin meðvituð um eftirspurnina - en geri ráð fyrir því að hún sé ekki gífurleg í öllum tilfellum.


Er gjafamenning úr sér gengin?

Ég hef sjálf pottþétt gefið gjöf sem þiggjandinn losaði sig við. Líkurnar á því að maður hitti alltaf naglann á höfuðið eru hverfandi. Fólk veit auðvitað best hvað það vill sjálft og því ætti einna helst að gefa pening. En hvar væri fegurðin í því? Annað sjónarmið er að bestu gjafirnar endurspegli hve lengi gefandi hefur dvalið í hugarheimi þiggjandans.


Því betur sem þú þekkir manneskjuna sem fær gjöfina frá þér – því líklegra er væntanlega að þú hittir í mark.

En ef þú þekkir manneskjuna ekki? Eftir jól hrönnuðust upp frásagnir á Mæðratips um fjölda jólagjafa frá Shein og Temu, fyrirtækjum sem falla ekki einungis á umhverfisprófi heldur mannúðarprófi og eiturefnaprófi líka. Af athugasemdunum virðist gífurleg skautun milli fólks og skiptust konur í eftirfarandi fylkingar:


1. Þú ert vanþakklát og heimtufrek ef þú segir eitthvað við gjöfunum

2. Þú ættir að segja eitthvað því gefandinn vill örugglega velja eitthvað sem nýtist næst


Ég hef sett þessi mörk gagnvart mínum nánustu en þrátt fyrir það lenda einstaka sinnum hlutir inná heimilið frá

þessum fyrirtækjum. Í þeim tilfellum veit ég raunverulega ekki hvað ég á að gera við þá hluti. Vil ég gefa eitthvað áfram sem ég myndi aldrei bjóða mínum börnum uppá – vitandi af eiturefnunum? Er samt ekki eitthvað bogið við að henda þessu beint í ruslið?


Barnaloppan til bjargar?

Það er orðin stíf samfélagsleg pressa hverrar móður að selja flíkur barna sinna í Barnaloppunni. Ég finn svo sterkt fyrir henni sjálf að ég prófaði. Ég mætti galvösk með tvo fulla ruslapoka af fötum og brosti til allra hinna mæðranna sem stóðu sveittar við sinn bás í sömu erindagjörðum. Fátt hefur verið jafn lítið gefandi og þessi reynsla og mun ég seint reyna þetta aftur. Mín tilfinning er sú að Barnaloppan og fleiri álíka markaðir séu að verða afsökun fyrir enn meiri innkaupum, því „við ætlum að selja þetta bara áfram ef við notum þetta ekki“.


Tökum þessi skref

Sennilega er engin töfralausn og áfram þarf ég að finna farveg fyrir allt sem fellur úr notkun á heimilinum, hvort

sem það eru gjafir eða annað. Það er þó á kristaltæru að vandamálið felst í magninu.


Ef það væru færri hlutir á heimilinu:


• þyrfti ég ekki að losa mig við jafn mikið

• væri tiltektin einfaldari

• ætti hver hlutur sinn stað (þá myndi ég kannski vita hvar lyklarnir eru)


Við þurfum viðhorfsbreytingu um hluti og verðmæti þeirra. Hún gerist hjá okkur sjálfum en líka í samtalinu á

kaffistofunni, heimilinu eða jafnvel á Mæðratips. Er sælla að gefa en að þiggja? Hvað finnst þér?

 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagt inn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prenta meira og dreifa víðar

bottom of page