"Ertu á móti framförum?"
- Þorgerður María Þorbjarnardóttir
- Feb 6
- 2 min read
Ólafur Gestur Arnalds, prófessor á eftirlaunum
Margar áskoranirnar blasa við á nýju ári – þegar nýir stjórnarherrar taka við völdum vítt um heiminn, sumir
með æði sérkennilega sýn á samfélag manna og réttlæti. Stjórnmálin verða æ klikkaðri á sama tíma og
auðlindir jarðar sem knýja hagsældina hafa látið á sjá – náttúran er komin í nauðvörn. Hagsæld á Vesturlöndum
sem að hluta byggðist á að seilast inn á lendur annarra til að halda tannhjóli hagsvaxtarins gangandi, í Afríku, Asíu, Suður-Ameríku – you name it – hefur valdið ómældum hörmungum vítt um heiminn. Hér heima er einnig nýtt fólk í brúnni og það verður spennandi að fylgjast með hversu vel þeim tekst að stíga ölduna. Báran rís brött, því það eru hreint ótrúlega snúin viðfangsefni sem bíða úrlausnar.
Orkufrekjukórinn er nú kominn upp á háa C – með allar raddir mannaðar. Gigg út um allar trissur og þjóðin
leggur við hlustir. Erum við að verða rafmagnslaus? Virkilega? Við, sem framleiðum meira rafmagn en
nokkur önnur þjóð á hvern íbúa – Noregur er eins og 9 volta batterí í samanburði við íslenska megavattið.
Hver stjórnar eiginlega þessum kór?
Vindmyllur? Út um allar koppagrundir? Orkusparnaður hvað? Vindmyllur þurfa jöfnunarorku því þau undur
gerast á Íslandi að stundum er logn (í alvöru). Því þarf almenningur að punga út meiri peningum í aðrar
virkjanir og fórna meiri náttúru til að dæmið gangi upp. Gáfulegt? Nei. Svo þarf innviði til að flytja rafmagnið
til notenda, hver borgar fyrir það? Vindmyllunum fylgir þykk súpa neikvæðra umhverfisáhrifa og félagslegra
vandræða. Svo er ekkert ljóst í hvað á að nota alla þessa orku. Orkuskipti er eiginlega orðið annað
hugtak á peningum í vösum auðfólks sem þarf að græða meira. Með dassi af “ertu á móti framförum?”
réttlætingu. Við hin borgum brúsann.
Loftslag jarðar er að breytast vegna áhrifa þeirrar kynskóðar á Vesturlöndum sem ólst upp í sívaxandi
hagsæld. Afleiðingarnar eru geigvænlegar. Þjóðir heims keppast við – flestar aðeins í orði – að draga
úr losun þessara gastegunda. Ísland líka – í orði. En um leið lokar þjóðin augunum fyrir því að losun
gróðurhúsalofttegunda er langsamlega mest frá landinu sjálfu - moldinni. Vegna framræslu á mýrum
og vegna þess hve moldin okkar er tætt og illa farin, svo kolefnisforði hennar tapast út í andrúmsloftið sem
CO2. Nú er hins vegar að komast í tísku að afneita loftslagsbreytingum. Síst af öllu fást stjórnarherrar – eða fjölmiðill okkar landsmanna, Ríkisútvarpið, að ræða málin, t.d. í aðdraganda kosninga. Síðasta ár var það kaldasta á öldinni á Íslandi – öfugt við það sem gengur og gerist annars staðar.
Spurningin er hvort hafstraumar Norður-Atlantshafsins séu að veikjast, að ylurinn að sunnan sé að dofna. Þá er stutt í Ísöld á Íslandi. Þá munum við landsmenn þurfa að fylkjast suður á bóginn, og bæta þar með örfáum hræðum (hlutfallslega) í gríðarlegan hóp fólks sem er á flótta undan hvers kyns hörmungum. Ég velti því fyrir mér hvort við verðum t.d. velkomin í Venesúela, Úganda, Sýrlandi? Ætli það verði mikil og tafsöm skriffinnska sem fylgir? Flóttamannabúðir? Ætli hörundsliturinn komi til með að skipta máli?