top of page

Hálendið í heljargreipum

Guðmundur R. Svansson, formaður stjórnar Ásatrúarfélagsins og fararstjóri hjá FÍ


Eitt af síðustu verkum síðustu ríkisstjórnar var að samþykkja það sem heitir því annars óþjála nafni

svæðisskipulag suðurhálendis, þrátt fyrir alvarlegar athugasemdir sem Skipulagsstofnun hafði gert við

ákveðna lykilþætti skipulagsins. Sagan segir reyndar að starfsmenn stofnunarinnar hafi margir hverjir frétt í

jólahlaðborðinu daginn fyrir kjördag að fyrr um daginn hafi verið tilkynnt að Sigurður Ingi hefði verið að sækja

og staðfesta skipulagið og fylgdi ekki sögunni hvað það gerði fyrir jólaskapið.


Svæðisskipulagið hafði verið lengi í vinnslu og hlotið mikla gagnrýni náttúruunnenda og útivistarsamtaka en nánast ekkert hafði verið fjallað um það í fjölmiðlum. Þarna var meðal annars samþykkt að helstu vegir hálendisins yrðu upphækkaðir.


Það má annars vegar gera margvíslegar athugasemdir við innihald og stefnumörkun þessa skipulags, og hins

vegar við stjórnsýsluleg vinnubrögð bæði ráðherra og sveitarstjórna á fyrri og síðari stigum málsins. En á

þessum tímapunkti er ef til vill enn mikilvægara að átta sig á því hvert við erum komin með þann málaflokk sem

skipulagsmál miðhálendisins eru. Segja má að þarna hafi nokkur fámenn sveitarfélög - íbúar þeirra um 2%

þjóðarinnar - stigið inn í stefnuleysi og pólitískt tómlæti sem einkennir málefni miðhálendisins eftir að frumvarpið um hálendisþjóðgarð féll og tekið völdin yfir framtíð miðhálendisins með atbeina ráðherran sem er auðvitað heimamaður í einu þessara sveitarfélaga.


Deilur almennings, sveitarfélaga, ríkis og einstakra landeigenda um völdin yfir miðhálendinu eru mun

eldri en núverandi lagaumgjörð, en trúlega hefur staða sveitarfélaganna aldrei verið betri. Við megum eiga

von á því að fjöldi annarra sveitarfélaga sem eru smá í íbúafjölda en stór í hekturum muni á næstu árum að setja

sambærilega hálendisvegi í sitt aðalskipulag án þess að komin sé stefnumörkun um það í gegnum landsskipulag, sem væri í raun rétti stjórnsýslufarvegurinn. Þetta þýðir til að mynda að Vík í Mýrdal hefur ekki bara haft meira en almenningur um veg um Kaldadal að segja - hún hefur haft meira um það segja en íbúar Borgarbyggðar.


Pólitíska verkefni næstu missera er að benda á að þetta sé óásættanleg staða og að beita sér með skýrum hætti

fyrir því að skipulagsmál miðhálendisins séu hugsuð upp á nýtt. Í því samhengi er mikilvægt að muna að ákvörðun þessara sveitarfélaga um að svæðisskipuleggja sín hálendi var viðbragð og mótleikur við frumvarpi um miðhálendisþjóðgarð og þeim rökum að sveitarfélagamörk fylgdu ekki vistkerfum og landslagsheildum.

Hugmyndin um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu hefur jafnan notið mikil fylgis, en málin flækjast þegar kemur

að því að útfæra hann. Það er kannski skiljanlegt að stjórnmálin séu hrædd við að taka slaginn þegar það er

engin samstaða um útfærsluna. En það að svæðisskipulag suðurhálendis hafi fengist staðfest og taki gildi þarf að vekja fólk upp af vondum draumi. Biðstaða og vísvitandi stefnuleysi þýðir ekki kyrrstaða, heldur þýðir það að þeir aðilar sem hafa aðstöðu til ganga á lagið og búa til fordæmi sem erfitt getur verið að snúa við og að staða almennings, umhverfisverndar og útivistar þrengist á kostnað nærliggjandi sveitarfélaga og

hagsmuna heimamanna í þeim.

 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagt inn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prenta meira og dreifa víðar

bottom of page