top of page
Search

Fuglarnir í þokunni

Andrés Ingi Jónsson, dýravinur


Núna styttist í vorið og lóan er meira að segja komin til að minna okkur á það hvað er frábært þegar umhverfið fyllist af syngjandi, tístandi fuglum. Hins vegar eru ótrúlega margir fuglar á landinu árið um kring án þess að flest okkar taki eftir þeim. 


Hvað sást þú annars margar hænur á síðasta ári? Sennilega ekki mjög margar og líklega ekki neina þeirra sem eru ræktaðar til að framleiða kjöt eða egg. 


Iðnvædd dýraræktun hefur gengið einna lengst í að breyta aðstæðum alifugla af öllum dýrategundum. Þeir fæðast, lifa og deyja í þröngum og rökkvuðum skemmum. Það er bara handfylli af fólki sem sér þær. Samt er staðan sú að í hverjum mánuði slátra Íslendingar í kringum hálfri milljón alifugla – mest kjúklingum – eða meira en einum fugli á hverja manneskju. Árið 2024 var 5,7 milljónum alifugla slátrað á Íslandi. 


Þetta er svo stór tala að við eigum sennilega flest erfitt með að ímynda okkur hvernig hópur 5,7 milljón fugla myndi líta út. Ef við leikum okkur að reikna út frá reglugerð um velferð alifugla, þá er þar til dæmis viðmið um að hámarki skulu vera 9 fuglar á hvern fermetra í lausagönguhúsum. Það eru miklu meiri þrengsli en hænum væri náttúrulegt að lifa við, en meira að segja í þannig þrengslum þyrfti 640 þúsund fermetra til að rúma alla alifuglana sem var slátrað á síðasta ári. Fyrir sveitafólkið, þá eru það 64 hektarar. Fyrir borgarbúana, þá er það allur gamli Vesturbærinn auk Kvosarinnar. Ímyndaðu þér allt þetta svæði svo þéttpakkað með fuglum að sést varla í jörðina undir þeim.


Auðvitað þarf ekki svona mikið pláss fyrir alifuglana sem eru ræktaðir í verksmiðjum fyrir matvælakerfi Íslendinga, því þessar 5,7 milljónir voru aldrei á lífi á sama tíma. Þarna eru margar, margar kynslóðir fugla sem fá að lifa eins stutt og hægt er að komast upp með. Hagkvæmnikrafan stýrir för.


Vandi alifugla er að þeir lifa í fullkominni þoku. Oft er það þannig að brot gegn velferð dýra uppgötvast þegar ótengdur aðili – nágranni, vegfarandi eða fjölmiðill – verður vitni að einhverju og kemur því á framfæri. Þetta gerist sárasjaldan hjá alifuglum í lokuðu skemmunum, fuglunum sem engin sér. Og þegar það gerist, þá þekkjum við því miður allt of vel hvað stjórnvöld geta sýnt iðnaðarræktendum mikið langlundargeð, þannig að ótal kynslóðir fugla lifi og deyi áður en úrbætur eru gerðar. 


 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagtinn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prentameira og dreifa víðar

bottom of page