top of page

Hugleiðingar Vaðlaheiðinnar

Úr leikverkinu Vaðlaheiðargöng í uppsetningu leikhópsins Verkfræðingar. Sýnt í Borgarleikhúsinu vorið 2023. Verkið fjallaði öðrum þræði um þversagnarkennt samband manns og náttúru og endalok alls.


Karl Ágúst Þórbergsson – Sviðslistamaður skrifar


Tími…


Ég hef tíma…


Ég hef helling af tíma.


Tíma til að gera alls konar. Það er eins og tíminn sé ekki alveg hreinskilinn oft á tíðum. Mér líður eins og ég geti ekki alveg treyst honum. Finnst hann oft sigla undir fölsku flaggi. Einu sinni var ég að reyna að gera eitthvað fyrir sjálfan mig og þá var allt í einu kominn þriðjudagur.


Sólin er blóðrauð og við erum öll að drukkna hægt en örugglega. Ég gleymdi að kaupa poppmaís. Ég er með einhvern þurrk á olnbogunum og bak við eyrun. Ég er með óþægilegan seiðing í þörmunum. Ég er með sviða undir tungunni. Ég er með hjartslátt í augunum. Ég er með stöðugt bakflæði. Ég er með nístandi samviskubit. Ég er með bólgur í tannholdi. Ég er með vöðvabólgu alls staðar. Ég er svo þreyttur á sjálfum mér. Ég er með helling af áhyggjum. Ég er með inngróið hár. Ég er með náladofa. Var ég búinn að slökkva á eldavélinni? Rennur vatnið nokkuð í baðvaskinum? Ef við hlustum ekki á líkamann þá endum við á því að fara eftir höfðinu og það endar aldrei vel. Einu sinni hætti frændi minn að anda niður í maga og hann er í dag allt of upptekinn af því að gera við sláttuvélar og reykja capri. Hvers konar líf heldurðu að það sé? Ég get ekki meir. Ég vil ekki að þetta hætti. Ég veit ekkert um steina. Ekki neitt. Veit bara að steinar eru steinar. Svartir eða gráir, allir eiginlega eins. Steinar eru bara steinar og ekkert meira með það. Það er heitt hérna. Það er vatn alls staðar. Mér finnst samt vatn geggjað. Ég elska sturtu, sundferðir, regnið og mér finnst frábært að þamba vatn. En ég bara gleymi því! Svo horfir maður kannski á fullt af fólki verða undir flóðbylgju og þá man maður hvað vatn er alls konar.


Ég stekk ofan í, hika ekki. Gufa. Þoka. Raki og myrkur, lykt af jörðinni, rætur, steinn. Það átti aldrei neinn að sjá þennan stein. Sprengingar, byssuhljóð, dropar, bílar, vatnsflaumur, rok. Ég vildi að ég gæti… Það er fallegt hérna. Stórbrotin fegurð. Stór - Brotin - Fegurð! Stór. Brotin. Ég sundrast. Ég sundrast. Ég sundrast…

 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagt inn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prenta meira og dreifa víðar

bottom of page