top of page

Hvers vegna votlendi?

Aron Alexander Þorvarðarson – Líffræðingur og verkefnastjóri hjá Fuglavernd


Mýrar höfðu lengi vel ekki neitt sérstakt gildi fyrir manninn. Við sáum lítil sem engin not fyrir þær, hér á Íslandi og víða um heim. Þær eru blautar og kaldar, erfiðar yfirferðar, vonlausar í landbúnað, óstöðugur grunnur fyrir mannvirki og auk þess heimili margra fljúgandi skordýra sem eru mun hrifnari af okkur en við af þeim.

Mýrar fengu því slæmt orðspor snemma og hafa því miður enn víða um heim. Frá byrjun 20. aldar er talið að flatarmál mýra hafi minnkað um 70% á heimsvísu og jafnvel 87% frá 18. öld. Á Íslandi er talið að um 70% allra mýra á láglendi séu undir neikvæðum áhrifum af framræslu.


En af hverju skipta mýrar máli? Eru þær ekki vonlaus vistgerð?

Þær hafa nefnilega upp á margt að bjóða. Hið mannmiðaða sjónarhorn horfir á hvernig vistgerðaþjónustu mýrar veita okkur, og þar er af mörgu að taka. Helst ber að nefna geymslu, hreinsun og miðlun vatns, til dæmis með því að draga úr flóðahættu þegar úrkoma er mikil en einnig veita nærliggjandi svæðum vatn á þurrum tímabilum. Það er þó ekki allt, því einnig má nefna kolefnisbindingu og langtímageymslu kolefnis, en votlendi geyma um 20-30% af öllu kolefni í jarðvegi á heimsvísu, þrátt fyrir að þekja einungis 5-8% af flatarmáli jarðar.  Auk þess eru votlendi yfirleitt með mun meiri líffræðilega fjölbreytni en aðrar nærliggjandi vistgerðir, og eru almennt heitir reitir fyrir líffræðilega fjölbreytni vegna þess að gróður og lífríki þess er sjaldan að finna annars staðar. Svona mætti lengi halda áfram að lofa ágæti mýranna okkar, en ágæti þeirra kristallast þegar litið er á fuglalífið í þeim.


Rannsókn á Suðurlandi sýndi að votlendi hafði hæsta þéttleika fugla af öllum þeim vistgerðum sem voru skoðaðar. Votlendi eru nýtt að einhverju leyti af 53 af 72 fuglategundum sem verpa á Íslandi og af þeim 53 tegundum eru 30 algjörlega háðar þeirri þjónustu sem votlendi veitir þeim á varptíma. Með öðrum orðum, þá treysta hvorki meira né minna en 42% af varpfuglategundum okkar á mýrarnar. Þarna má nefna nokkrar af okkar kærustu tegundum líkt og spóa, hrossagauk, heiðlóu, stelk, lóuþræl og jaðrakan. Undirritaður hefur stundað fuglaskoðun nokkuð víða, m.a. í Evrópu, Ameríku og Afríku og iðulega er skemmtilegasta og fjölbreyttasta fuglalífið í kringum votlendi.


Mýrarnar og önnur votlendissvæði eru því gríðarleg auðlind fyrir okkur og líffræðilega fjölbreytni, sem ég hvet þig, lesandi góður, til að skoða betur. Mundu bara eftir stígvélunum!


 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagt inn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prenta meira og dreifa víðar

bottom of page