top of page

Hafið – sameiginlegt verkefni mannkyns og Íslands

Stefán Jón Hafstein, formaður Aldin


Í næstu viku kemur alþjóðasamfélagið saman í Nice undir merkjum Sameinuðu þjóðanna – ekki til að ræða aukaatriði heldur til að takast á við eitt stærsta viðfangsefni samtímans: hafið. Þriðja hafréttarráðstefnan verður, að mati margra, ekki hefðbundinn fundur embættismanna og ráðherra til að rifja upp gamlar yfirlýsingar, heldur ákall. Ákall um ábyrgð. Um raunverulegar aðgerðir. Og um nýjan sáttmála milli manns og hafs.


Ísland þarf að svara þessu ákalli – ekki aðeins vegna þess að við búum yfir einni stærstu efnahagslögsögu í Evrópu, heldur vegna þess að við höfum rödd sem enn nýtur trausts. Við höfum reynslu, vísindi, hagsmuni – og við höfum skyldur.


Þær skyldur hafa þó ekki alltaf verið ræktar sem skyldi. Dagslöng ráðstefna Þjóðaröryggisráðs um málefni hafsins fyrir skömmu dregur það fram í dagsljósið. Þar komu fram mörg gagnrýnisverð atriði, sem tekin verða saman í skýrslu á næstunni. Ég nefni eitt sem vekur sérstaka athygli: Stefnan sem liggur til grundvallar hafmálum Íslands hefur ekki verið uppfærð í tvo áratugi. Í millitíðinni hefur orðið gríðarleg þróun – í loftslagsmálum, líffræðilegri fjölbreytni, tækni, djúpsjávarrannsóknum – og við höfum látið undir höfuð leggjast að bregðast við.


Sjórinn sem fæðir – og krefst ábyrgðar


Íslenskur sjávarútvegur hefur byggst upp á grunni sjálfbærni. Það eru skiptar skoðanir um skiptingu auðlinda og framkvæmd kvótakerfisins, en líklegt er að helstu nytjastofnarnir við Ísland hafa að mestu verið verndaðir fyrir ofveiði. Víða annars staðar hefur illa farið. Það er þó engin ástæða til sjálfhælni – því árangurinn hér er misjafn og vilji til umbóta þarf að vera stöðugur.


Næsta skref í átt að sjálfbærni er að taka upp vistkerfisstjórnun – heildræna nálgun sem tekur mið af líffræðilegri fjölbreytni, vistkerfum og samspili tegunda. Þetta er í anda þeirra alþjóðaskuldbindinga sem við höfum undirgengist – en ekki enn útfært til fulls í íslenskri stefnumótun.


Úthöfin og samstaðan


Á ráðstefnunni í Nice verður sérstök áhersla á svokallaðan BBNJ-samning – um vernd líffræðilegs fjölbreytileika á úthöfum, utan lögsögu ríkja. Ísland þarf að leggja sitt af mörkum – bæði með því að standa vörð um vísindalegar nálganir og með því að viðurkenna sameiginlega ábyrgð okkar á alþjóðlegum auðlindum.


Við vitum að lífríki hafsins er í hættu. Hlýnun sjávar á norðurslóðum á sér stað hraðar en við höfum áður séð. Súrnun sjávar er meiri við Ísland en víða annars staðar. Þessar breytingar verða ekki eingöngu til innan okkar lögsögu – en við finnum fyrir þeim og þurfum að bregðast við. Það getum við aðeins gert ef við tökum þátt í alþjóðlegum lausnum. Við getum ekki krafist ábyrgðar frá öðrum ef við forðumst hana sjálf.


Forsætisráðherra Íslands orðaði þetta vel á ráðstefnu Þjóðaröryggisráðs:

„Auðlindanýting í hafi snýst ekki lengur eingöngu um fiskinn. Nýting hans hefur kennt okkur að sjálfbær nýting er möguleg. Hafrannsóknir hafa leiðbeint okkur – og við höfum lært af mistökum annarra, og líka okkar eigin.“


Það á jafnt við um djúpsjávarnámur, græn orkutækifæri og plastmengun. Öllu þessu þarf að mæta með þekkingu, varkárni og langrímasýn. Ekki skyndilausnum.


Fjármögnun framtíðarinnar


Loftslagsaðgerðir verða ofarlega á baugi í Nice. Ísland getur haft þar hlutverki að gegna – ekki með sjálfhælni heldur með frumkvæði. Með rannsóknum, með tækninýjungum, með notkun hreinnar orku í sjávarútvegi og siglingum. Við höfum nokkuð fram að færa – ef við höfum vilja til að fjárfesta í framtíðinni og horfa með raunsæi til þess að vanrækslusyndir eru margar.


Rödd Íslands og staða borgaralegs samfélags


Á ráðstefnunni koma saman þjóðarleiðtogar, embættismenn, vísindamenn og fulltrúar félagasamtaka. Ég fæ þann heiður að vera á meðal þeirra síðarnefndu – og það er mikilvægt að rödd Íslands heyr¬ist ekki aðeins í ræðustólum heldur líka frá grasrótinni. Borgaralegt samfélag hefur hlutverki að gegna í mótun stefnu um hafið, rétt eins og í loftslagsmálum, náttúruvernd og mannréttindum.

 —---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------


Nokkrir lykilpunktar af dagskrá ráðstefnunnar:


Sjálfbær nýting hafsins: Markmið ráðstefnunnar er að hraða vernd og nýtingu hafauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi – til að tryggja fæðuöryggi og lífsviðurværi hundruða milljóna manna.


BBNJ-samningurinn: Samningurinn sem samþykktur var 2023 þarfnast fullgildingar 60 ríkja – Ísland er ekki enn meðal þeirra.


Fjármögnun: Vonir standa til að skuldbindingar upp á 100 milljarða USD verði samþykktar – til að bregðast við plastmengun, ofveiði og loftslagsáhrifum.


Siglingar og loftslag: Kallað er eftir kolefnishlutlausum lausnum í sjóflutningum – og auknum stuðningi við hafrannsóknir.


Verndun hafsvæða: Stefnt er að því að 30% hafsvæða heims verði friðlýst, í samræmi við Montreal-ramma um líffræðilega fjölbreytni.


Nice Ocean Action Plan: Ráðstefnunni lýkur með samþykkt aðgerðaáætlunar sem á að forðast innantóma orðræðu og kalla fram raunverulegar aðgerðir.


Djúpsjávarnámur: Þrátt fyrir vaxandi umfjöllun verða þessi mál ekki tekin fyrir – þar sem ekki ríkir enn samstaða um stefnu á alþjóðavettvangi.


Nice er ekki bara ráðstefna. Hún er prófsteinn. Á því hvort við lítum á hafið sem auðlind til nýtingar – eða sem viðkvæmt og sameiginlegt vistkerfi sem ber að vernda.


Ísland getur haft áhrif – en aðeins ef við tökum ábyrgð.


 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagt inn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prenta meira og dreifa víðar

bottom of page